Áramótadiskóin í Edinborg
top of page
Search
  • Writer's pictureRúnar Örn

Áramótadiskóin í Edinborg

Updated: Dec 23, 2023

Árið 2012 fékk ég þá flugu í höfuðið að það væri frábær hugmynd að halda áramótadiskótek á Ísafirði. Þá var ég náttúrulega löngu fluttur til höfuðborgarinnar, og að mestu hættur að spila "læf", þannig að þetta var auðvitað bara tóm vitleysa. Ég vildi hafa þetta stórt og alvöru, enga pöbbastemmingu eða neitt slíkt og fyrsta hugmyndin var að hafa þetta sem gamalt og gott sveitaball í Félagsheimilinu í Hnífsdal (sætaferðir og alles). Ég ákvað hinsvegar að kanna með áhuga þeirra bræðra og borgarstjóra í Edinborgarhúsinu hvort þeir hefðu einhvern áhuga á slíkum gjörningi og undarlegt nokk þá voru þeir meira en tilbúnir að hlusta á þennan vitleysing úr Reykjavík (lesist: sérfræðing að sunnan).


Næsta skrefið var að tala við félaga Víði, sem lengst af starfaði með mér í diskóbransanum fyrir vestan, og eins og gera mátti ráð fyrir hélt hann að ég hefði dottið á höfuðið og væri klárlega ekki alveg með sjálfum mér. Eftir smá sannfæringu lét hann þó tilleiðast og við fórum í óðaönn að skipuleggja þetta líka svaka partý. Allt gekk þetta alveg ljómandi vel þar til kom að því að koma sér vestur, því þá tók vetur konungur völdin og sagði stopp. Eða hann reyndi það allavega svo um munar. Ég komst vestur við illan leik milli jóla og nýárs en sú ferð gekk ekki betur en svo að ég komst með bíl til Súðavíkur (sællar minningar) og þurfti svo að fara með bát það sem eftir var ferðarinnar þar sem allir vegir lokuðust vegna veðurs og snjóflóðahættu. Allt var gert fyrir diskópartýið, því annars hefði ég þurft að halda fyrsta áramótadiskóið í Súðavík ! Félagi Víðir var hinsvegar ekki eins "heppinn" og ég því hann var veðurtepptur í höfuðborginni á fyrsta Áramótadiskói okkar félaganna, og sýndi því þar framúrskarandi fjarveru.


Fyrsta Áramótadiskóið tókst semsagt svo vel, þrátt fyrir válynd veður, langvarandi rafmagnsleysi,, allsherjar ófærð og almennt vesen, að það var ákveðið að halda annað partý næstu áramót á eftir, og þannig hefur þetta gengið koll af kolli síðan. Þess má geta að um hver áramót höldum við félagarnir Áramótadiskóið okkar í allra síðasta sinn, og höfum gert það alls átta sinnum núna :-)


Við höfum alltaf lagt mikla vinnu í þetta verkefni. Notum toppgræjur og tryggum að hljómgæðin séu alltaf fyrsta flokks. Ljósashow með reyk og látum, auk þess sem að við setjum upp skjái og myndvarpa til að gera þessa upplifun sem skemmtilegasta fyrir þá sem kjósa að eyða áramótunum með okkur í Edinborgarsalnum. Við höfum blandað saman nýjustu tónlistinni hverju sinni við þessa gömlu góðu, sem við höfum verið þekktastir fyrir í gegnum tíðina og hefur sú blanda greinilega líkað vel, að minnsta kosti var alltaf frábær mæting og geggjuð stemming á þessa viðburði.




0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page