Græju og tónlistarsjúkir drengir á Ísafirði fóru snemma að huga að því að stofna útvarp, enda töldum við okkur hafa mikla og óumdeilda hæfileika á því sviði. Undirritaður byrjaði sinn útvarpsferil í Gaggó, eða Gagnfræðaskólanum gamla, en þar bjuggum við til úvarpsstöð í valáfanga í samfélagsfræði. Þessi útvarpsstöð fékk nafnið Radíó Gaggó, sem að sjálfsögðu var skírskotun í hið ódauðlega lag Radio ga ga með hljómsveitinni Queen. Þetta útvarp var sérstakt að því leyti að enginn var útvarpssendirinn heldur bjuggum við bara til einn útvarpsþátt og spiluðum hann fyrir nemendur skólans á sal.
Síðar meir var það svo útvarpsstöðin í Menntaskólanum, hin stórskemmtilega MÍ-fluga, sem keyrð var árlega samhliða Sólrisuhátíð skólans. Ef ég man rétt var ég viðloðandi þetta útvarp öll mín ár í menntaskólanum. Við lögðum mikinn metnað í þessa dagskrárgerð, unnum kynningarefni fyrir dagskrárliði Sólrisunnar og fengum listamenn sem tóku þátt í gleðinni til að koma í spjall til okkar í útvarpið.
Að sjálfsögðu var þetta ekki nóg fyrir okkur og nokkrar útvarpsstöðvar komu og fóru, eins og gengur og gerist. Við rákum útvarpsstöð í gamla herkastalanum (meðfylgjandi mynd af undirrituðum og félaga Víði er ef minnið svíkur mig ekki tekin þar) og einnig vorum við með útvarpsstöð á efstu hæðinni í Ísafjarðarbíó sællar minningar. Einhverjar útvarpsstöðvar voru reknar á efri hæðinni í húsinu sem Klæðakot er í núna. Þar var t.d. frábær stöð sem hét Útvarp Siglingadagar, sem rekin var samhliða samnefndri hátíð sem Úlfar Ágústsson og fleiri góðir menn héldu út af miklum myndarbrag í bænum. Þar lögðum við mikinn metnað í að kynna dagskrá siglingadaga og að sjálfsögðu spila lauflétta tónlist í bland.
Flottasta og jafnframt metnaðarfyllsta stöðin sem við vorum með var þó hin svokallaða Ísafjarðar-Bylgja, sem staðsett var á efri hæðinni í gamla Kaupfélaginu. Forsprakki þeirrar stöðvar, og útvarpsstjóri, var Gunnar Atli Jónsson og var drifkraftur hans og dugnaður í þessu brölti til háborinnar fyrirmyndar, svo ekki sé meira sagt. Mikið var lagt í þessa stöð í alla staði, hvað varðar tæknibúnað og dagskrárgerð. Á þessum tíma náðist Bylgjan (hin eina sanna) ekki á Ísafirði, nema í gegnum afruglara Stöðvar 2, það er á þeim tímum sem ekki var dagskrá í gangi á Stöð 2. Fólk varð því að hlusta á Bylgjuna á daginn í gegnum sjónvarpið sitt, sem oft var smá vesen. Við gerðum því samning við Bylgjuna um að dreifa sendingum Bylgjunnar um okkar sendi í gegnum fyrrnefndan afruglara á daginn, og svo tók við okkar eigin dagskrá um leið og dagskrá Stöðvar 2 hófst seinni part dags.
Eins og áður sagði þá lögðum við mikinn metnað í þetta verkefni og við vorum t.d. með beinar útsendingar frá böllum í Sjallanum og Krúsinni, við gáfum miða á böllin, gáfum pizzur og fleira og fleira. Dagskrá stöðvarinnar var býsna fjölbreytt, allt frá argasta þungarokki til alvöru danstónlistar (og þá meina ég alvöru danstónlistar, þ.e. skottís, ræl, vals og alla þá félaga) og allt þar á milli. Ísafjarðar-Bylgjan stóð fyrir ýmsum uppákomum, t.d. karaókí keppni í Krúsinni og margt margt fleira (þeir sem voru viðstaddir það kvöld í Krúsinni munu örugglega aldrei gleyma því).
Víðir & Rúnar, sem í þessa daga störfuðu sem plötusnúðar í Sjallanum og Krúsinni voru með útvarpsþátt á laugardagskvöldum sem hófst strax eftir fréttir Stöðvar 2 og stóð til kl 23 (en þá þurftu þeir að hlaupa yfir götuna til að manna diskóbúrin). Þáttur þessi fékk nafnið "Tveir Tæpir" og var þar að sjálfsögðu verið að vitna til miklu frægari útvarpsþáttar á Bylgjunni sem hét "Tveir með öllu" (Jón Axel og Gulli Helga). Við lögðum alltaf mikinn metnað í þennan þátt og varð hann fljótt mjög vinsæll hjá ísfirðingum sem voru ýmist á rúntinum eða bara að halda sín partý úti í bæ. Við tókum gjarnan símtöl frá hlustendum, spiluðum óskalög, en þekktastir vorum við sennilega fyrir syrpurnar og stefin sem framleidd voru fyrir þáttinn. Þessi hljóðbrot sem við rigguðum saman skiptu tugum og lögð var mikil vinna í að gera þetta sem best úr garði, enda virkaði þetta mjög vel.
Frá þessum útvarpsárum og brölti okkar á ég ekkert nema góðar minningar. Þetta var alltaf ótrúlega gaman og upp til hópa frábær félagsskapur sem stóð að þessum stöðvum öllum. Eins og sagt er á engri íslensku: Good times !
Comments