top of page
Search
  • Writer's pictureRúnar Örn

Í upphafi var...

Updated: May 9, 2022

Í gamla gamla daga þegar ég var að byrja að fikta með að mixa saman lög var tækjabúnaðurinn ekki upp á mjög marga fiska.  Einhverntíma bar ég mig aumlega við foreldra mína og sagði þeim að ég yrði augljóslega að eignast mixer, annað væri varla mannsæmandi.  Í næstu utanlandsferð þeirra var því splæst í forláta mixer fyrir elsku drenginn.  Þessi mixer var var heilar fjórar rásir og mikill kostagripur og þjónaði hann mér í ansi mörg ár þar a eftir.  Því miður held ég að hann sé ekki til í dag, en það hefði nú verið gaman að eiga hann svona upp á nostalgíuna.

Síðan var það plötuspilarinn (Nordmende).  Hann var þeim kostum gæddur að hann var extra hraður í gang þannig að hægt var að stilla plötuna á nákvæmlega réttan stað, t.d. í byrjun lags, og setja svo græjuna í gang og þá fór lagið af stað á nákvæmlega réttum stað og tíma, sem auðvitað var gríðarlega mikið atriði.  Til að þetta mætti verða þá þurfti ég að útbúa sérstakt fjöltengi með rofa sem ég hafði á gólfinu og stýrði ég því startinu á plötuspilaranum með fætinum !  Já maður var nú stundum ráðagóður hérna í denn.

Öll mixin voru svo tekin upp á forláta Nordmende kasettutæki.  Þetta tæki var eitt af þeim bestu sem við félagarnir komumst í því að það var svo góður pásutakki á því.  Þannig klippti maður saman allskyns mix og blöndur með pásutakkann einan að vopni.  Með þessi tæki voru fyrstu RR-mixin búin til og einnig öll stef og allar auglýsingar sem undirritaður gerði fyrir þær útvarpsstöðvar sem við strákarnir rákum hér í gamla daga á Ísafirði, s.s. MÍ flugu Menntaskólans, Útvarp Siglingadaga, og svo síðar meir Ísafjarðar-Bylgjuna, sællar minningar.


0 comments

Comments


bottom of page